Heimsókn í Skaftholt

Ég á mér marga drauma og einn af þeim er að Sigtryggur Einar geti búið í sveit í framtíðinni.  Það eru mörg ár síðan að ég hugsaði fyrst út í það en eftir þvi sem að árin líða sannfærist ég alltaf betur og betur að sveitin er það eina rétta fyrir hann í framtíðinni. 

Fyrir nokkrum mánuðum síðan sá ég fyrir algera tilviljun þáttinn Út og suður í sjónvarpinu.  Í þessum þætti var viðtal við fólkið sem rekur sambýlið í Skaftholti í Þjórsárdal.  Eftir að ég sá þáttinn gat ég ekki hægt að hugsa um það hvort þetta væri ekki staður eins og ég var búin að láta mig dreyma um fyrir Sigtrygg.  Í desember lét ég verða að því að hringja í Skaftholt og spjalla við fólkið.  Ég átti langt og gott spjall við Atie Bakker sem endaði á því að við ákváðum að fara í heimsókn í Skaftholt í janúar.  Sigtryggur komst að þessari ætlan okkar, þ.e. að heimsækja þessa sveit, og það er ekkert lítið sem drengurinn er búinn að vera spenntur !  Enda eru heimsóknir í sveit það allra skemmtilegasta sem hann gerir.  Þegar hann komst að þessu var honum sagt að við færum þangað í janúar.  Þessi óljósa tímasetning voru alveg nægar upplýsingar fyrir hann alveg þangað til að 1. janúar rann upp.  Þá um morguninn var eitt af því fyrsta sem hann sagði: “Kominn janúar, heimsækja Skaftholt”.  Í byrjun janúar fór svo að bera á því að Sigtryggur átti mjög erfitt með að sofna á kvöldin.  Hann var að sofna mjög seint eða á milli klukkan 12 á miðnætti og alveg til 2 á nóttunnni.  Þetta var búið að koma fyrir í nokkur skipti þegar við fórum að spá í hvað í ósköðunum væri að.  Þá rann upp  fyrir mér að það var að valda honum svefnleysi og óróleika að hann vissi ekki hvaða dag hann færi í Skaftholt.  Þegar mig fór að gruna að þetta væri ástæðan hringdi ég í Skaftholt og ákvað hvaða dag við færum.  Það var eins og við manninn mælt að þegar Sigtryggur fékk að vita að þann 19. janúar færum við þá steinhætti þessi vanlíðan hjá honum og hann fór að sofna á eðlilegum tíma á kvöldin. 

Í morgun rann svo langþráður dagur upp !  Rétt fyrir hádegi fórum við til afans og ömmunnar í Heiðarseli þar sem við vorum boðin í hádegismat.  Matarlystin var ekki mikil hjá Sigtryggi svo mikill var spenningurinn.  Þegar Sævar pabbi hans var svo kominn til okkar í Heiðarselið og við öll búin að fá kaffi eftir matinn var svo LOKSINS lagt af stað og Halla Katrín skilin eftir hjá afa og ömmu. 

Vegna veðurs og færðar undanfarna daga fengum við pickupinn hans tengdapabba lánaðan og héldum af stað.  Í stuttu máli sagt  þá var þessi heimsókn alveg yndisleg í alla staði.  Atie tók á móti okkur ásamt einni af þeim sem býr þarna.  Atie sýndi okkur húsið en Sigtryggur hafði lítinn áhuga á því og lét það alveg í ljós að hann var meira að bíða eftir því að sjá útihúsin og dýrin.  Eftir að hafa farið rúnt um svæðið skoðað fjósið, fjárhúsin og hænsnahúsið fórum við inn aftur og fengum kaffi, smákökur og smakk af osti sem búinn er til á staðnum og spjölluðum við Atie og nokkra af heimilisfólinu.  Þessi staður alveg yndislegur.  Þarna býr gott fólk.  Sigtryggur fékk að fara aftur í fjárhúsið en svo var kominn tími til að fara heim og það var hann alls ekki sáttur við.  Ég er nánast viss um að honum hefði verið nokkuð sama þó við hefðum skilið hann eftir þarna ....... 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berta María Hreinsdóttir

En hvað þetta hefur verið skemmtileg ferð fyrir Sigtrygg.....hann er svo sannarlega með sterk "bóndagen" í sér:) Frábært hjá ykkur að ráðstafa þessu og ábúendurnir greinilega vænsta fólk

Knús til ykkar**

Berta María Hreinsdóttir, 20.1.2008 kl. 09:07

2 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Knús.

Kristín Katla Árnadóttir, 20.1.2008 kl. 15:58

3 identicon

Mjög spennandi!

Vonandi verður þetta framtíðarheimilið hans :)

Anna Málfríður (IP-tala skráð) 21.1.2008 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband