Mamma hvað er síminn hjá Jólasveininum ?
8.12.2007 | 22:12
Þessa spurningu fékk ég frá honum Kristjáni mínum núna í kvöld. Þarna varð ég að vera snögg að hugsa og sagði við strákinn: "Ja, það er nú það. Þú verður bara að kíkja á ja.is......." Þarna hélt ég að ég væri sloppin .... en það var nú aldeilis ekki svoleiðis. Kristján fór í tölvuna og fann símanúmerið hjá jólasveinunum ÖLLUM ! Júbb, þeir eru sko allir í skránni og auðvitað allir með sama símanúmer og fyrir þá sem ekki vita þá er símanúmerið hjá þeim bræðrum 587-1097
"Má ég ekki hringja í jólasveininn og panta hann hingað til okkar og spjalla við hann ?" var næsta spurning. "Það er örugglega svo mikið að gera hjá honum að hann hefur örugglega ekki tíma til að koma bara og spjalla" svaraði ég og þóttist nokkuð góð ....... "Má ég þá ekki bara hringja í hann og segja honum í símann hvað mig langar í jólagjöf ?" spurði Kristján svo og var nú svolítið svekktur á þessum svörum móður sinnar. Og ekki minnkaði svekkelsið við svarið við þessari spurningu: "Neeeee, jólasveinarnir vilja bara fá óskalistana í bréfi. Þeir taka ekki á móti þeim í gegnum síma." Þetta fannst honum greinilega frekar leiðinlegt og hætti að tala um að hringja í jólasveininn.
Í morgun átti ég von á því að pabbi og mamma myndu kíkja til okkar í heimsókn. Ég vissi að þau komu suður í gær til að fara á jólahlaðborð með "Nesbúsliðinu". Ég hringdi í pabba til að vita hvenær þau kæmu en þá var hann á leiðinni til Keflavíkur að sækja mömmu því að í nótt hafði Jökull bróðir komið og sótt mömmu því að hann og Oddný þurftu að fara með litla krílið hann Birni Snæ á sjúkrahús. Birnir er kominn með RS - vírus og er alveg ofsalega veikur litla greyið. Ég frétti svo seinnipartinn í dag að hann væri farinn að fá einhverja stera og væri allur að skána, sem betur fer. RS - vírus er sko ekkert grín fyrir þessi litlu grey, ég er ekki enn búin að gleyma því þegar að hann Sigtryggur fékk þetta þegar hann var um það bil 8 mánaða gamall.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1 búið - 2 eftir .....
6.12.2007 | 23:19
Já nú er blessað sálfræðiprófið búið og ég er ekkert smá fegin ! Þetta eru búnir að vera svolítið strembnir dagar. Halla litla er búin að vera lasin, með augnvírus og kvef og hefur þess vegna sofið mjög illa. Í gærkvöldi fór ég svo í vinnuna og þar sem að stressið var alveg að fara með mig þá notaði ég hverja mínútu í nótt sem ekkert var að gera til að lesa fyrir sálfræðiprófið. Í stresskastinu í nótt var ég alveg harðákveðin í að vera bara í vinnunni fram að prófinu og lesa en þegar vaktinni lauk var ég svo búin á því að ég fór heim og svaf í tæpa 2 tíma. Vaknaði tímanlega, fór í góða sturtu til að vakna almennilega og fór svo í prófið. Ég held svei mér þá að mér hafi gengið bara alveg sæmilega. Ég skildi bara 1 spurningu eftir (sem gilti 6%). Svo er bara að sjá hverju hinar spurningarnar skili mér. Verkefni á önninni sem voru 4 giltu 20% í lokaeinkunn og 2 gagnvirk próf giltu 10%. Ég fékk 7,8 9,2 9,2 og 9,0 fyrir verkefnin og 4,0 og 7,5 fyrir gagnvirku prófin þannig að ég þarf bara að ná 4,5 í lokaprófinu til að ná örugglega áfanganum og fj..... hafi það ég er viss um að ég náði ......... Það kemur í ljós um helgina en kennarinn er búinn að setja loforð inn á skólavefinn um að skila einkunnum á sunnudaginn.
Eins og undanfarin ár er hann Sigtryggur minn mjög duglegur við að skrifa óskalista til jólasveinsins. Hann er svolítið búinn að uppfæra verkið og er farinn að hnuppla umslögum til að setja óskalistann í og utaná er svo skrifað: "Til sveinka" og til að vera viss um að allt fari þetta nú á réttan stað teiknar hann frímerki í hægra hornið á umslaginu og setur það svo í skóinn sinn Listinn á myndinni hérna til hliðar gæti sko alveg hæglega verið listinn frá Sigtryggi því það er ansi margt sem hann langar í í jólagjöf
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Allt í gangi og jólin nálgast eins og óð fluga !
4.12.2007 | 09:03
Samkvæmt útreikningum systra minna, sem eru btw úber góðar í að reikna, þá eru 98 dagar þar til að við systurnar ásamt, mömmu, mágkonu okkar, frænku, vinkonu, fyrrverandi mágkonu okkar systra og fyrrv. tengdó (minni sko) förum til LONDON Ekki seinna vænna að fara að telja niður
Eins og áður hefur komið fram þá er brjálað að gera hjá mér. Það er nú samt farið að sjá fyrir endann á því þar sem að prófin eru framundan og mér finnst eiginlega jólin meigi bara koma um leið og prófin eru búin því að undirbúningur jólanna er vel á veg kominn hjá mér Ég er búin að skila öllum verkefnum og búin að fá einkunnir fyrir þau flest. Ekki man ég hvort að ég hef náð að monta mig eða kvarta yfir þeim öllum en ég bara verð að monta mig yfir þeirri sem ég fékk í gær. Ég held reyndar að ég hafi bloggað hérna einu sinni um slæma tilfinningu mína fyrir þessu verkefni og kviðið þvi mikið að ég fengi nún ekki gott fyrir það ...... EN í gær fékk ég s.s. einkunina fyrir sálfræðirannsóknina mína á eigin skammtímaminni og ég fékk 9,2 fyrir hana !
Svo er ég loksins búin að fá niðurstöður fyrir 4 verkfeni sem að ég vann í heilbrigðisfræði á önninni og þar eru ein 10 og þrjú 9
Nú er bara að halda áfram að lesa undir sálfræðiprófið sem að er á fimmtudaginn. Ég tók nefnilega próf á netinu (algerlega óundirbúin) í sálfræðinni og fékk 4 Þetta má ekki gerast aftur .......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bleikt er fyrir stelpur og blátt fyrir stráka !
29.11.2007 | 06:27
Heima hjá mér er einn harðasti andstæðingur Kolbrúnar í þessum efnum en það er hann Sigtryggur minn. Hann er sko alveg harður á því að bleikt er ekki fyrir stráka, það er sko STELPULITUR !
Klukkan rúmlega fimm í dag var hringt í mig frá frístundaklúbbnum sem Sigtryggur er í og mér sagt að það væri ekki búið að sækja hann. Ég rauk í það að hringja í ferðaþjónustu fatlaðra og skammast í þeim fyrir að gleyma að sækja krakkann og keyra hann í skammtímavistun ....... Eftir smá stund og 2 símtöl var leigubíllinn sem átti að vera búinn að sækja hann kominn á staðinn að keyra hann í Hólaberg. Hálftíma eftir þessa uppákomu hringdi ég í Hólaberg bara svona til að tékka hvort strákurinn hafi ekki skilað sér og hvernig ástandið á honum væri, vitandi það að svona seinkun fer svolítið í "einhverfu" taugarnar hans. Þegar starfsmaður Hólabergs svaraði í símann heyrði ég um leið í mínum manni og var greinilegt á þeim hljóðum að hann var sko ekki sáttur við lífið og tilveruna ....... Ég var viss um að ástæðan væri sú að hann hafði verið sóttur of seint en annað kom á daginn. Hann var vissulega ósáttur við seinkunina en þegar að hann kom í Hólaberg sá hann að honum hafði verið úthlutað "stelpu-herberginu" sem er bleikt á litinn ! Hann var svooooo reiður að hann tók varla eftir því þegar starfsmennirnir voru að reyna að segja honum að hann þyrfti ekki að sofa í þessu bleika herbergi heldur fengi hann að sofa í borðstofunni í gestabeddanum. Það tókst nú samt á endanum að róa hann niður og sýna honum fram á að hann þyrfti ekki að sofa þarna ......
Ekki meira blátt og bleikt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
POLITE REQUEST
26.11.2007 | 04:33
POLITE
REQUEST
If you see me acting strange
Behavior not in average range
do not point
do not compare
do not laugh
and do not stare.
But for a moment stop and pause
give time to think
´what is the cause?`
You will not see the world as I
but with compassion you might try
to understand Autisms frame
that every star is not the same.
We all have light within us shine.
Give me the chance
to show you mine.
Höf. óþekktur
Það getur vel verið að ég hafi einhverntíman áður birt þetta ljóð hérna á blogginu mínu eins og máltækið segir: Góð vísa er aldrei of oft kveðin.
Þetta ljóð kemur oft upp í huga mér þegar ég sé að fólk starir á syni mína með spurningarsvip í andlitinu og skilur hvorki upp né niður í hegðun þeirra.......
TAKK til allra þeirra sem leggja sig fram um að skilja
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fréttir frá Gremjustöðum 75 af útskrift og fleiru
24.11.2007 | 06:12
Í gær útskrifaðist ég formlega úr Fagnámskeiði I í umönnun Fékk þetta fína útskriftarviðurkenningarskjal og svo köku og kaffi með öllu liðinu ! Ekki amalegt það ....... Eftir áramót er svo fyrirhugað að halda framhaldsnámskeið eða Fagnámskeið II í umönnun og það freistar mikið að skella sér í það líka svo maður fái nú smá launahækkun Hjúkkan sem er búin að kenna okkur mest í vetur samþykkti að kenna líka eftir áramót ef að hún fengi að kenna hópnum sem ég var í aftur ..... Munur að vera svona vinsæl
Af hinum skólanum sem ég er í er allt í fullum gangi ennþá og senn líður að prófum. Verkefnaskil eru að mestu búin en smá eftir af gagnvirkum prófum á netinu sem ég þarf að taka. Þau gilda svo sem ekki mikið til lokaeinkunnar en þau eru samt fín æfing fyrir lokaprófin. Núna áðan tók ég eitt slíkt próf í náttúrufræði og fékk 9,2. Þetta var þriðja slíka prófið í NÁT103 og í því fyrsta fékk ég 9,0, 7,4 fyrir næsta og svo núna 9,2 og svei mér þá ef ég er ekki bara nokkuð sátt við það
Ég er mikið búin að vera að taka sjálfa mig í gegn varðandi hugsanagang í náminu. Ég hef verið að gera þær kröfur til sjálfrar mín að það sé bara ekki boðlegt að fá minna en 8,0 fyrir verkefni og próf en ég held að það sé bara ekki rétt að gera slíkar kröfur. Núna er ég að reyna að koma því í hausinn á mér að ég geri bara eins vel og ég get og það er fínt er ég bara næ áfanganum !
Heima hjá mér hefur undanfarna daga ríkt mikil gremja og geðvonska hjá litlu dömunni á heimilinu. Í gær taldi ég mig svo hafa uppgötvað ástæðuna fyrir þessu fremur neikvæða ástandi, en ég fann 2 nýjar tennur hjá þeirri stuttu. Eina hliðarframtönn í neðri góm og einn barnajaxl. Svo þegar að ég fór að bursta allar þessar tennur bæði nýkomnar og hinar fann ég 2 barnajaxla í viðbót sem voru farnir að gæjast í gegn Ekki skrítið að skapið hafi ekki verið upp á marga fiska .......
Núna er tannburstinn líka einn af betri vinum hennar Höllu Katrínar. Hún ranghvolfir næstum því augunum þegar maður er að bursta í henni tennurnar ....... henni finnnst það svoooooooooo gott Ekki skaðar það nú heldur hvað tannkremið er asskoti gott líka ......
Sigtryggur minn er ekki hættur að suða um að eignast lítinn bróðir. Ég sagði við hann um daginn að við ætluðum ekki að eignast fleiri börn og hann fengi þess vegna ekki einn enn bróðir. Þá svaraði Sigtryggur að bragði: "Já en Óli pabbi er með ofnæmi fyrir hundum !" S.s. fyrst hann fær ekki hund vill hann lítinn bróðir í staðinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
:(
20.11.2007 | 22:18
...... skrapp út að keyra í gær
.......fór að sækja Kristján Atla í Frístundaklúbbinn
....... bakkaði á /#%$#%Y$#%&# ljósastaur við að snúa við
JÁ ÉG VEIT ! ....................
Ljósastaurarnir sjást ekki nógu vel !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sé rúmið mitt í hyllingum .......
19.11.2007 | 06:02
Þessa stundina þá er þetta minn stærsti draumur ! Ég er svo ógeðslega syfjuð að það er ekki fyndið ...... Samt svaf ég til rúmlega 14 í gær og lagði mig svo í rúma 2 tíma eftir kvöldmatinn. Þetta er nú líka fimmta vaktin mín í röð þannig að það er kannski ekki skrítið að ég sé svolítið syfjuð ........ Framundan er svo 6 daga frí í vinnunni en bara þeim mun meira að gera heima. Það er nefnilega ýmislegt sem fær að sitja á hakanum meðan að ég tek 5 vakta törn. Svo er alltaf nóg að gera í skólanum.
Hef ekki orku í að blogga .......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eru jólin ekki alveg að koma ?
18.11.2007 | 02:15
Júbb, fyrsta sönnun þess rann upp hjá mér í kvöld en þá fórum við Óli út að borða með stórum hópi vinafólks á jólahlaðborð í Skíðaskálanum í Hveradölum Alveg frábær matur og skemmtilegt kvöld fyrir utan einn smá galla ..... en það var að vegna veðurs úti fyrir þá var alveg skítakuldi í salnum þar sem við vorum Við vorum með þeim fyrstu í salinn og hélt ég að þetta væri nú bara svona til að byrja með en ónei ...... húsið hélt hreinlega ekki vindi þannig að eftir því sem að hvessti úti varð kaldara inni. Fljótlega eftir að við renndum niður eftirréttinum yfirgáfum við staðinn. Slatti af liðinu fór austur fyrir fjall í partý, sumir fóru heim til sín í bæinn og ég dreif mig í vinnuna
Á vefflakki mínu áðan rakst ég á eftirfarandi sögu. Ég las hana fyrir nokkrum árum síðan en mér finnst hún alltaf jafn góð .....
Velkomin til Hollands
eftir EMILY PEARL KINGSLEY
Ég hef oft verið beðin um að lýsa því hvernig það er að ala upp fatlað barn, til þess að fólk sem hefur ekki notið þessarar sérstæðu reynslu geti skilið og ímyndað sér hvernig tilfinning það er.
Það er eins og...
Þegar þú átt von á barni er það eins og að skipuleggja dásamlegt ferðalag, t.d. til Ítalíu. Þú kaupir fullt af leiðsögubókum og skipuleggur frábærar ferðir. Til Colosseum-safnsins, sjá Davíð Michelangelos og gondólana í Feneyjum. Þú lærir jafnvel nokkrar setningar í ítölsku. Þetta er allt mjög spennandi.
Eftir að hafa beðið spennt í marga mánuði rennur dagurinn loksins upp. Þú pakkar niður og leggur af stað. Eftir nokkurra klukkustunda flug lendir vélin. Flugfreyjan kemur inn og segir: "Velkomin til Hollands."
"Hollands?!?" segir þú. "Hvað meinar þú með Holland? Ég ætlaði að fara til Ítalíu! Ég á að vera á Ítalíu. Alla ævi hefur mig dreymt um að fara til Ítalíu."
En það hefur orðið breyting á flugáætlun. Flugvélin er lent í Hollandi og þar verður þú að vera.
Mestu máli skiptir þó að þeir hafa ekki flogið með þig á hræðilegan, viðbjóðslegan, skítugan stað fullan af meindýrum, hungri og sjúkdómum. Þú ert bara annars staðar en þú ætlaðir þér í upphafi.
Þú verður því að fara út og kaupa nýjar leiðsögubækur og læra nýtt tungumál. Þú kemur til með að hitta hóp af fólki sem þú hefðir annars aldrei hitt.
En þetta er bara annar staður. Allt gerist miklu hægar en á Ítalíu og hér er ekki eins töfrandi og á Ítalíu. Þegar þú hefur náð andanum, staldrað við um stund og litið í kringum þig, ferðu að taka eftir því að í Hollandi eru vindmyllur... og í Hollandi eru túlípanar. Holland getur jafnvel státað af Rembrandt.
Allir sem þú þekkir eru uppteknir við að koma og fara frá Ítalíu... og þeir eru allir að monta sig af því hversu góðar stundir þeir áttu þar. Alla ævi átt þú eftir að segja: "Já, það var þangað sem ég ætlaði að fara, það var þangað sem ég var búin að ákveða að fara."
Sársaukinn mun aldrei, aldrei hverfa, því missir draumsins sem ekki rættist er mikill.
En... ef þú eyðir allri ævinni í að syrgja að þú fórst ekki til Ítalíu nærð þú aldrei að njóta þeirra sérstöku, yndislegu hluta, sem Holland hefur upp á að bjóða.
Íslensk þýðing: Indriði Björnsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
KALORÍUREGLUR FYRIR JÓLIN
16.11.2007 | 02:54
Fékk þessar snilldar reglur í e-mail í dag .......
Maturinn sem þú borðar þegar enginn sér til hefur engar kaloríur.
Þegar þú borðar með öðrum eru einungis kaloríur í matnum sem þú borðar umfram þau.
Matur sem er neytt af læknisfræðilegum ástæðum (t.d. jólaglögg, heitt súkkulaði, rauðvín o.s.frv.) inniheldur aldrei kaloríur.
Því meira sem þú fitar þá sem þú umgengst daglega því grennri sýnist þú.
Matur (t.d. poppkorn, kartöfluflögur,hnetur, gos, súkkulaði og brjóstsykur) sem er borðaður í kvikmyndahúsi eða þegar horft er á myndband er kaloríulaus vegna þess að hann er hluti af skemmtuninni.
Kökusneiðar og smákökur innihalda ekki kaloríur þar sem þær molna úr þegar bitið er í þær.
Allt sem er sleikt af sleikjum, sleifum, og innan úr skálum eða sem ratar upp í þig á meðan þú eldar matinn inniheldur ekki kaloríur vegna þess að þetta er liður í matseldinni.
Matur sem hefur samskonar lit hefur sama kaloríufjölda (t.d. tómatar = jarðaberjasulta, næpur = hvítt súkkulaði)
Matur sem er frosinn inniheldur ekki kaloríur því kaloríur eru hitaeiningar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)