15. nóvember
15.11.2007 | 04:53
Á mánudaginn fór ég til tannlæknis og lúllaði aðeins þar meðan að tannsi kláraði að loka tönn sem hann hefur verið að dunda sér við að rótfylla. Þegar ég var búin hjá tannsa skrapp ég í heimsókn til Brynhildar vinkonu minnar og fékk loksins að sjá litlu dóttur hennar með eigin augum. Ég er búin að sjá fullt af myndum af henni en fékk loksins núna að hitta litlu hetjuna. Þessi litla dúlla er sko sannkölluð hetja þvi hún á í raun ekki að vera fædd ennþá því að hún átti að fæðast 17. nóvember en fæddist 29. ágúst. Þann 1. desember verður stúlkan skírð og mamma hennar bað mig um að sjá um að mynda athöfnina og það var sko auðsótt mál. Enda er ég komin með nýja myndavél og 2 nýjar linsur og rosa spennt að prófa nýju græjuna í svona töku. Hérna fyrir ofan má svo sjá mynd sem að Brynhildur tók af okkur, mér og litlu hetjunni. Kannsi rangnefni að segja "litlu" því að sú stutta er orðin rúmlega 3.800 grömm. Hér er svo mynd af hetjunni:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Snillingurinn minn hann Kristján Atli
13.11.2007 | 10:14
"Mamma, veistu það varð slys í skólanum í dag" sagði Kristján Atli við mig þegar að hann kom heim úr skólanum í gær.
"Nú, hvað kom fyrir" svaraði ég.
"Strákur í bekknum hans Sigtryggs var að renna sér á stigahandriði og datt í stiganum !" sagði Kristján mjög ákafur.
"Meiddi hann sig mikið ?" spurði ég.
"Já, það kom sjúkrabíll og allt. Meira að segja 2 sjúkrabílar ! Hann rotaðist samt ekki, því hann hreyfði sig og þeir sem rotast geta ekki hreyfti sig" sagði Kristján og dró síður en svo úr dramanum í þessu öllu saman.
"Þarna sérðu Kristján minn að það er stórhættulegt að renna sér á stigahandriðum" sagði ég og hélt að þar með væri þetta útrætt. En það var nú aldeilis ekki svoleiðis.
"Ég vona að hann hljóti ekki sömu örlög og Jónas Hallgrímsson !" sagði Kristján minn mjög áhyggjufullur. Þarna mátti ég vanda mig mikið að halda andlitinu og fara ekki að skellihlæja
"Hvað meinaru Kristján minn ?" spurði ég og þóttist ekkert skilja.
"Nú, Jónas datt fullur í stiga og hann dó af því að það kom ekki sjúkrabíll !" útskýrði Kristján fyrir mér fullur þolinmæði .....
Þetta endaði með því að ég leiðrétti þennan misskilning hjá drengnum og sagði honum að Jónas hefði nú ekki dáið af því að það kom ekki sjúkrabíll heldur lést hann vegna blóðeytrunar sem hann fékk í kjölfar fótbrots. Jónas hafði vissulega dottið niður stiga og verið fullur, þar hafði hann rétt fyrir sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Nú er ég orðlaus !
12.11.2007 | 20:58
Hann Sigtryggur minn á það til að gera mig alveg kjaftstopp. Um daginn hafði hann mörg orð um það að hann vildi ekki fleiri systkini, sagði reyndar í sífellu: "ekki fleiri börn". Hann meira að segja sagði afa sínum þetta í kirkjunni þegar að við Óli vorum að gifta okkur. En nú er nú aldeilis komið annað hljóð í strokkinn ! Núna í kvöld þegar að ég var að baða systur hans kom hann til mín og sagði við mig eitthvað á þessa leið: "veistu mig dreymdi í nótt".
"Hvað dreymdi þig vinur ?" svaraði ég.
"fleiri bræður" sagði Sigtryggur og brosti.
Ég hélt ég hefði verið að heyra vitlaust og sagði við hann: "þú átt 2 bræður Sigtryggur minn"
"Ég vil 3 bræður" svaraði hann að bragði.
Á þessu augnabliki var ég orðin alveg kjaftstopp ! Hann var að biðja um fleiri systkini. En hann var ekki hættur, eftir smá stund kom hann til mín og sagði: "Hann á að heita Elías Weywadt Ólafsson, WeyWadt svona eins og Halla Katrín". Ef ég bara vissi hvaðan hann hefur þessa hugdettu, ég mundi gefa mikið fyrir að vita hvaðan þetta kemur .......
Eins og margir vita átti ég afmæli s.l. laugardag. Ef allar upplýsingar eru réttar varð ég 34 ára þennan dag Kærar þakkir til allra sem sendu mér kveðju á afmælisdaginn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bloggað um miðja nótt
9.11.2007 | 05:27
Eins og áður þá er stærsta afsökun mín á bloggleysinu, annríki. Eftir að heim kom úr sveitasælunni og átinu mikla fyrir norðan tók við verkefnavinna í bunkum ! 8. nóv. Var skiladagur á verkefni í heilbrigðisfræði og í dag 9. nóv er skiladagur á stóru sálfræðiverkefni. Ég er búin að vera lengi að vinna þetta verkefni en það er rannsókn á spönnun skammtímaminnis hjá sjálfri mér og svo ítarleg skýrsla eftir kungstarinnar reglum um allt saman. Ég skilaði heilbrigðisverkefninu á tilsettum tíma og svo fer sálfræðiverkefni í e-mail til kennarans þegar að ég vakna í dag og er búin að lesa það yfir einu sinni enn ........ Þannig að nú er frí frá verkefnavinnu í smá tíma. EN það þíðir samt ekki að ég geti lagst í eitthvert letikast ÓNEI því það bíða mín 3 gagnvirk próf á netinu sem ég má ráða hvenær ég tek en þau gilda töluvert til lokaprófs þannig að nú er bara að bretta upp ermarnar og smella sér í prófin.
Á miðvikudagsmorguninn fór ég með Höllu Katrínu í ungbarnaeftirlitið til hennar Jónu Margrétar. Erindið var hefðbundið 18 mánaða eftirlit og sprauta. Í stuttu máli sagt kom Halla litla alveg frábærlega út úr þessu eftirliti hún hefur í alla staði fullan þroska 18 mánaða barns þó að hún sé í raun bara 16 mánaða (hefði hún fæðst á réttum tíma.) Halla vóg 9.970 grömm (án snuddunnar eftir mikið samningaþóf.....) og mældist 79 cm löng (tekið með fyrirvara því mín var verulega ósátt við þessa mæliaðferð !) Þegar skoðuninni lauk hjá Jónu Margréti skoðaði læknirinn hana svolítið og svo hjálpuðust þær að við að sprauta hana og ó mæ god hvað Hallan varð reið Þetta voru nú ljótu nornirnar sem þarna voru Hún var ekki búin að jafna sig þegar ég var búin að klæða hana í og hún harðneitaði að kveðja þessar vondu konur þegar að við yfirgáfum svæðið.
Kristján Atli og Sigtryggur Einar eru í fantafínu formi þessa dagana. Sigtryggur Einar er byrjaður í frístundaklúbb sem starfræktur er í Sólheimum 21. Hann er sóttur í skólann klukkan 14 af starfsmönnum frístundaklúbbsins og svo kemur hann heim með leigubíl um klukkan 17:30. Ástæðan fyrir leigubílnum er sú að akstursþjónustan, Allrahanda, hefur ekki bíl og er ekki á þessari leið á réttum tíma þannig að þeir útvega okkur leigubíl í staðinn. Ókosturinn við þetta er mjög ör skipti á bílstjórum sem þekkja Sigtrygg Einar lítið sem ekki neitt.Í fyrra notuðum við þessa þjónustu fyrir Sigtrygg Einar og gekk það í flestum tilfellum vel. Einhver misskilningur varð til þess að við vorum sífellt rukkuð fyrir leigubílaaksturinn en áttum ekki að þurfa að borga neitt. Ég eyddi talsverðum tíma í símtöl til að fá þetta leiðrétt og kröfurnar felldar niður. Eitthvað af þessum símtölum hefur Sigtryggur heyrt því að núna um daginn var ég að ræða þessa þjónustu við tengdamömmu þá heyrist í Sigtryggi: Þú þarft ekki að borga mamma
Well ..... nóg komið af slugsi við vinnuna og lærdóminn
Þangað til næst hafið það eins gott og þið mögulega getið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Í sveitinni
4.11.2007 | 21:43
Vetrarfrí í skólanum hjá strákunum þýddi að við brugðum undir okkur betri fætinum (ja eða allt svo nýja bílinn okkar) og skelltum okkur norður í sveitina okkar á fimmtudagskvöldið. Strákarnir voru reyndar í fríi á fimmtudeginum en ég var það ekki og Óli þurfti líka að vinna og þess vegna fórum við bara af stað seinnipartinn á fimmtudaginn. Við brunuðum beint í Efri - Mýrar til Árnýjar en þar erum við búin að halda til þó að við höfum farið ansi víða Á föstudaginn fórum við í hina sveitina okkar, Steiná. Kata frænka var búin að bjóða okkur í kvöldmat. Þegar Halla Katrín var búin að sofa miðdegislúrinn sinn fórum við frameftir og strákarnir fengu auðvitað að kíkja aðeins í fjárhúsin og svo borðuðum við alveg dýrindiskvöldmat sem samanstóð af lambalæri (steikt í mjööööööööööög langan tíma), kartöflum, brúnni sósu (svona alvöru sósu, ekki sveppa, pipar eða neitt sollis), hrásalati og rauðkáli Eftirrétturinn var svo bláber og rjómi og það var ekki laust við að manni hafi verið orðið svolítið illt af ofáti þegar staðið var upp frá matarborðinu ........
Morgnanir hafa farið í að fara með Árnýju systir og frænku í hænsnahúsið að pakka og tína egg. Meira segja Halla Katrín er búin að prófa að hjálpa pínulítið til. Hún fékk körfu með eggjum á gólfið og hún rétti eitt og eitt egg upp á gegnumlýsingarvélina en þegar hún var farin að leika sér með eggin og missa full mikið í gólfið fékk hún að "hætta störfum"
Í gærkvöldi fórum við Óli í mat til Völu og Gumma. Þetta var svona barnlaus hittingur þar sem að við borðuðum góðan mat, fengum okkur í glas (já og flöskur, bjórflöskur sko) og fórum svo í heita pottinn með drykkina okkar og skemmtum okkur heilan helling við að spjalla saman og segja misgáfulega brandara ..... Þessi elska hún Árný systir passaði ormana okkar á meðan og alveg þangað til að við skiluðum okkur í sveitina á ellefta tímanum í morgun. Hún naut dyggrar aðstoðað Svanhildar frænku allan tímann og ef þið lesið þetta Árný og Svanhildur:
Þúsund þakkir fyrir að passa fyrir okkur
Í dag var svo farið í heimsókn til afa og ömmu á Blönduósi og fyrst fengum við vöfflur og rjóma og svo var kvöldverður þar sem Lena og hennar fjölskylda komu líka ásamt þeim Gumma mág og Svanhildi. Vala systir missti af herlegheitunum þar sem hún þurfti að fara af stað suður til Reykjavíkur og Árný missti af því líka því hún var búin að fá annað matarboð og þiggja það þegar að mamma bauð í mat. Það var sko af miklu að missa því að í matinn var lambalæri og folaldasnitsel í raspi með öllu tilheyrandi !
Á morgun förum við svo heim ....... og ég leyfi mér að fullyrða að ég hef allavega ekki lést mikið í þessari ferð ........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Löngu komin heim frá Boston ..... Bara búið að vera brjálað að gera síðan
27.10.2007 | 04:57
Ég kom heim frá Boston á miðvikudagsmorgunn, alveg eldsnemma. Dauðþreytt og búin að tína heilli nótt vegna tímamismunar. EN þó ég væri þreytt þá var ég alveg alsæl með ferðina í alla staði Við versluðum auðvitað lítið eitt og svo lékum við túrista og skoðuðum okkur um alveg stórskemmtilega borg sem Boston er. En eins og við öll skemmtileg og vel heppnuð ferðalög er eitt af því besta við þau að koma heim aftur, hitta börnin, sofa í rúminu mínu og lífið fer í sinn vanalega farveg
Eitt að því sem fer óhjákvæmilega á "hold" þegar maður fer í svona ferðalag er námið (ég er ekki eins og ónefnd systir mín sem fer með skólabækurnar í útlandaferð .....) Það verður líka til þess að maður þarf að bretta upp ermarnar og vinna upp þegar heim er komið. Þetta er einmitt ástæðan fyrir þvi að ég bloggaði ekki fyrr. Það biðu mín nefnilega 2 skilaverkefni óunnin og eitt próf á netinu þegar ég kom heim. Verkefnunum átti ég að skila 26. október og klára prófið fyrir 28. október. Þrátt fyrir að vera ekki byrjuð á neinu af þessu fyrir brottför náði ég að klára allt á tilsettum tíma, silaði verkefnunum í gær og núna rétt áðan tók ég prófið. Prófið er gagnvirkt þannig að niðurstaðan kom um hæl og einkunin var 7,2.
Áður en ég fór til Boston skilaði ég einu verkefni í sálfræði og þegar ég kom heim fékk ég einkunina fyrir það, 9,0 Fékk 8,0 í fyrsta sálfræðiverkefninu, 9,0 núna og svo var ég að skila þriðja í gær. Hitt verkefnið sem ég skilaði í gær var fyrsta silaverkefnið í heilbrigðisfræði.
Well best að halda áfram að læra ... (ég er í vinnunni en það er bara mjög lítið að gera .....)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Obbolitid blogg fra Amerikunni .....
20.10.2007 | 04:06
... OMG (isl. thiding O mae god)
... buin ad versla fullt
... buin ad borda godan mat (mikid af'onum)
... buin ad drekka nokkra bjora (ja og strawberry margarita)
Her rignir helling en vid erum buin ad panta thurrt vedur a morgun. Sem betur fer tha er hlytt tho thad rigni
Kvedja til allra heima ......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Helgin búin og ég missti alveg af'enni !
15.10.2007 | 05:26
Fjórða vaktin af 6 aaalveg að verða búin sem betur fer Ég er alveg búin að sá það að það á ekki alveg við mig að taka svona margar vaktir í röð. Kannski er það svona extra erfitt af því að ég er svoooo spennt yfir utanlandsferðinni og fríinu framundan ....... Bara 3 nætur í viðbót, 2 í vinnunni og svo ein heima hjá mér og svo er ég farin til Boston !!!!
Um síðustu helgi byrjaði Sigtryggur Einar að fara í hesthúsið til hennar Ragnhildar aftur Og mikið svakalega varð hann glaður þegar að honum var sagt að hann fengi að byrja aftur hjá Ragnhildi.
Það er nú samt ekki svo gott að Reykjavíkurborg hafi dregið til baka fyrri ákvörðun heldur fór hverfisþjónustumiðstöðin okkar, Miðgarður í málið og á endanum var soðin saman bráðabirgða lausn sem Ragnhildur gekk að. Í dag fór svo Sigtryggur í hesthúsið aftur og hann vissi að Ragnhildur kæmi að sækja hann um klukkan 14. En strax um klukkan 12 var hann farinn að ganga á milli glugga og fylgjast með hvort að Ragnhildur væri nokkuð komin. Strákgreyið var alveg að springa úr spenningi !
Kristjáni Atla gengur ofsalega vel í skólanum. Hann er duglegur að læra og er mjög montinn af því núna hvað hann er duglegur að læra dönsku. Hann er ákveðinn í því að leggja mikla áherslu á dönskuna í vetur af því að hann er sko að fara til Danmerkur næsta sumar
Kristján er byrjaður í frístundaklúbb eftir skóla og fer hann þangað strax eftir skóla á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum. Þar sem ennþá hefur ekki tekist að fullmanna öll störf í frístundaklúbbnum fá krakkarnir bara 2 - 3 daga í viku svo að allir fái einhverja viðveru.
Því miður er ástandið svo bágt í frístundaklúbbnum sem ég sótti um fyrir Sigtrygg Einar að það er ekki einu sinni búið að opna þar hvað þá annað !
Þar til næst farið vel með hvert annað
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Niðurtalningin heldur áfram .......
14.10.2007 | 05:46
.... það eru bara 4 dagar í brottför !
Ekki misskilja þessa mynd því að hún endurspeglar alls ekki hvernig hugarástand mitt er þessa stundina Mér fannst myndin bara svo ferlega flott að ég varð að láta hana fljóta með þessu annars innihaldslausa blaðri í mér .......
Ég er búin að ráða hann Sigtrygg Einar í vinnu heima. Hann er lengi búinn að vera að lesa fyrir mig frasann sem stendur á mjólkurfernunum um að það eigi að skola fernurnar og skila þeim í næsta fernugám til endurvinnslu. Ég ákvað að nota þennan áhuga hans og bauð honum vinnu við að labba með fernurnar sem til falla á heimilinu í "grenndarstöðina" í hverfinu okkar. Í dag færði ég mig svolítið upp á skaftið og sendi hann með dagblöðin í blaðagáminn á sama stað
Sigtryggur fær auðvitað smá laun fyrir þessa vinnu og vonandi tekst smátt og smátt að kenna honum að safna sér fyrir einhverju sem hann langar að eignast.
Nenni ekki að blogga meir í þetta skipti ......
Þreytt - þreyttari - laaaaaaaaaaang þreyttust
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Búin að fá nýja bílinn minn !
13.10.2007 | 03:12
Þegar að ég var búin að sofa nægju mína í dag fórum við Óli og sóttum nýja bílinn "minn" Alveg rosa flottur glænýr stubbastrætó Sigtryggur og Halla Katrín komu með okkur að sækja bílinn og þegar búið var að skrifa undir alla pappíra og afhenda gamla bílinn fórum við á nýja bílnum að sækja Kristján Atla í frístundklúbbinn. Því næstu fórum við í Laufrimann, sníktum smá kaffi og kleinur og fengum svo Sigurjón Stefán lánaðan með okkur heim. Það varð jú að sýna honum nýja bílinn Svo var splæst í Dominos pizzur í kvöldmatinn svona í tilefni dagsins ....... já og líka að ég nennti ekki að elda Það var auðvitað meiningin að setja inn mynd af kagganum en vegna veðurs verður myndatakan að bíða betri tíma.
Þegar að við vorum að borða kvöldmatinn segir Sigurjón við Óla: "Ég get ekki borðað meira en 2 sneiðar". "Nú af hverju ekki ?" svarar Óli. "Sko, ef að ég borða meira þá fæ ég stóra bumbu eins og þú og þá spring ég og þá verður kók, vatn og kjöt út um allt !" Hann er svoooo mikill bullukollur þessi elska
Sporðdreki: Þú heldur ekki lengur að það besta eigi eftir að koma. Það besta er það sem þú fæst við núna, og smám saman gerirðu þetta að miklu heillaári.
Núna eru bara 5 dagar í brottför ..........
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)