Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Rúmur sólarhringur eftir af árinu ....

Þessi næstsíðasti sólarhringur ársins alveg að verða búinn.  Ég er búin að eyða honum í algert dekur og leti.  Það er alveg nauðsyn að öðru hvoru að lufsast bara með börnunum og liggja í leti. 

Stelpurófan mín er búin að vera svolítið lasin undanfarna daga, hóstað mikið og sofið frekar illa.  Hóstinn gerði það að verkum að við sáum aumur á greyinu í nótt (hafði ekkert með leti í okkur að gera) og leyfðum henni að koma upp í á milli okkar um klukkan 4 í nótt.  Þar svaf sú litla restina af nóttinni og sá til þess að móðir hennar svæfi ekkert of vel.  Það er frekar erfitt að sofa þegar skipst er á að slá mann og sparka í mann ......  Einhverra hluta vegna sparkar hún og lemur pabba sinn síður.  Sem ég skil reyndar ekki því það er ég viss um að það er miklu betra að sparka í hann ........  Smile

Aldrei þessu vant sváfu drengirnir þar til að klukkan var langt gengin í tíu.   Þegar þeir voru komnir á ról vakti ég Höllu litlu og þegar hún hafði fengið sér smá morgunmat fór ég með hana í leikskólann.  Eftir hádegi fór ég svo í ræktina og á meðan fóru Sigtryggur og Sigurjón í fjöruferð með nýju kíkirana sína á meðan að unglingurinn Kristján var heim og las (já eða spilaði í tölvunni)     Þegar ég var búin í ræktinni sóttum við Höllu í leikskólann og keyrðum hana í Heiðarselið til afa og ömmu.  Þau voru búin að samþykkja að passa gripinn meðan að við Óli færum í bíó með strákastóðið okkar. 
Við fórum að sjá Disney-myndina Bolt eða Bolti eins hún útleggst á okkar ástkæra......  Rétt fyrir jólin fékk ég glaðning frá vinnuveitanda mínum, Hrafnistu.  Ég fékk 4 boðsmiða í bíó í Laugarásbíó.  Þessi glaðningur kom sér vel í dag, ég þurfti bara að kaupa 1 bíómiða og popp og kók fyrir einn því að boðsmiðunum fylgdi popp og kók Smile
Bolti var sýndur í þrívídd og þetta er í fyrsta skipti sem að ég fer í þrívíddarbíó.  Fékk þessi forkunnarfögru gleraugu á nefið sem ég varð reyndar að setja yfir gleraugun mín,  samsetning sem dró verulega úr sjarmanum á fínu þrívíddargleraugunum Wink
Letilífið í dag endaði svo á því að við fórum með allan herinn okkar út að borða á Rizzo pizza.  

Á leið okkar heim eftir pizzu átið komum við við í B&L til að kaupa svolítið af flugeldum fyrir áramótin.   Strákarnir verða hjá pabba sínum um áramótin og fá þeir að fara  með megnið af skoteldunum þangað til að skjóta upp.  Nú er maður búin að gera smá góðverk og stutt Landsbjörgu um 14.ooo krónur Grin

Skoðum mín á flugeldum hefur ekkert breyst .... þeir eru ágætir í sjónvarpinu því þar get ég lækkað í hávaðanum frá þeim og finn ekki helv.... lyktina af þeim Devil


Jólin jólin út um allt

Eins og Sif frænka mín benti réttilega á í commenti við síðustu færslu hjá mér þá eru þeir fleiri en tveir sveinkarnir sem komnir eru til byggða.  Allir komu þeir til byggða og kíktu allir við í Bakkastöðunum með smávegis í skóinn hjá smáfólkinu á heimilinu.  Meira að segja hún Halla Katrín var alveg orðin með þetta á hreinu og núna skilur hún ekkert í því hvers vegna það kemur ekkert meira í skóinn og núna seinnipartinn í dag tilkynnti hún pabba sínum að hún "gleymdi dagatalinu" og það er líka búið FootinMouth  Þetta er nú meiri bömmerinn .....

 

adfangadagur%20033Unglingurinn á leið á jólaball í skólanum

Aðfangadagur leið mjög ljúflega hjá okkur.  Ég var að vinna aðfaranótt aðfangadags og fékk því að sofa til rúmlega 11 en þá vakti minn heittelskaði mig og við drifum okkur suður í Keflavík í jólagraut til Jökuls (uppáhalds)bróður og Oddnýjar.   Ef mér telst rétt til þá er þetta í þriðja sinn sem að við borðum grautinn saman.  Þannig að það er eiginlega orðin svona smá hefð hjá okkur systkinunum hérna fyrir sunnan að snæða jólagrautinn saman í hádeginu á aðfangadag.  Það var auðvitað sett mandla í grautinn, meira að segja 2 (við vorum svo mörg) og það voru þeir Kristján Atli og Óli sem fengu möndlurnar.  Við vorum varla byrjuð að borða þegar Kristján sýndi mér sýna og sagði: "mamma, hvað er þetta sem ég fann í grautnum ?"  Óli fann sína fljótlega eftir það en tókst að fela það þangað til að grauturinn var nánast búinn Smile  Kristján fékk 1. verðlaun í möndluleiknum og fékk Astrópíuspilið og Óli fékk 2. verðlaun en það var poki af karamellum sem hann fekk dyggja aðstoð frá smáfólkinu við að borða.

adfangadagur%20065
Halla Katrín að bíða eftir jólunum

Á leið okkar heim eftir jólagrautinn í Keflavík komum við við hjá afa og ömmu í Heiðarseli.  Fengum smá kaffisopa, sóttum pakka og kysstum þau gömlu gleðileg jól Smile

Næsta stopp var í Laufrimanum hjá ömmu Gunnu og Sævari til að skila Sigurjóni Stefáni af okkur og sækja meiri pakka.  Við stoppuðum auðvitað í smá stund og síðan var haldið heim að undirbúa kvöldið.

adfangadagur%20090
Aðfangadagskvöld, hamborgarhryggur með öllu ......

Undirbúningurinn fyrir kvöld gekk mjög vel.  Óli sá um hrygginn, ég og Sigtryggur gerður nammisalatið og ég sá svo um sósugerðina og svei mér þá ég held ég hafi toppað sjálfa mig í sósugerðinni í þetta skiptið Grin 
Þegar að átinu var lokið og allir voru búnir að hjálpast að við að ganga frá eftir matinn breyttist stofan mín í jólapakka vígvöll Pouty  Krökkunum lá svo á að áður en ég vissi af þá voru þau búin að opna alla sína og ég var ekki einu sinni byrjuð !  Þetta var svo sem alveg ágætt þar sem að ég fékk að opna mína í ró og næði.
Þetta voru mikil bókajól hjá okkur öllum og eiginlega bóka- og fatajól hjá krökkunum.  Ég fékk 2 bækur.  Eina frá mínum heittelskaða en það var 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp eftir Hallgrím Helgason og svo fékk ég (eða við fengum hana bæði) Sá einhverfi og við hin, eftir Jónu Á Gísladóttur bloggvinkonu mína, frá tengdó.  Svo fékk ég líka DVD með Ladda og einnig minningartónleikana um Vilhjálm Vilhjálmsson.  Ég fékk mjög sérstaka og yndislegagjöf frá pabba mínum og mömmu sem að mér þykir óendanlega vænt um Smile  Frá tengdó fékk ég, já og Óli minn líka, áðurnefnda bók og steikarpönnu.  Ég fékk fullt af frábærum pökkum og ennþá fleiri kort og kveðjur sem ég þakka kærlega fyrir.

 

adfangadagur%20113
Sigtryggur Einar með ljósmyndabókina frá afa, ömmu og Árnýju frænku á Blönduósi

 Jóladeginum erum við svo búin að eyða heima í rólegheitum utan þess að fara í smá bíltúr um kvöldmatarleytið.  Sævar, Gunna og Sigurjón Stefán komu til okkar um miðjan daginn og saman borðuðum við öll hangikjöt með öllu tilheyrandi Smile  Þegar kom svo að því að þau færu heim fékk Sigurjón að verða eftir og Sigtryggur fór heim með pabba sínum og ömmu í staðinn.

Að þessum orðum sögðum vil ég óska öllum ættingjum, vinum, bloggvinum og öðrum sem að lesa þetta gleðilegra jóla (restar) og farsældar á nýju ári með þökk fyrir allt á árinu sem nú er að líða Wizard


Meira af jólasveinum og trú á þá sveinana alla

stekkjastaur"Stekkjastaur kom fyrstur, stirðbusalegur karl,
hann fer af stað þrettán dögum fyrir jól, hann reynir að ná
sér í sopa af mjólk sem honum finnst ósköp góð en sú
heimsókn endar þó oftast með ósköpum því kindurnar
verða alveg ærar, stekkjastaur heldur þá áfram án þessa
að fá minnstan dreitil, því hann er svo stirður, já hrakfallabálkur er hann Stekkjastaur."

 Stekkjastaur kom fyrstur, 
stinnur eins og tré. 
Hann laumaðist í fjárhúsin 
og lék á bóndans fé. 

Hann vildi sjúga ærnar, 
-þá varð þeim ekki um sel, 
því greyið hafði staurfætur, 
-það gekk nú ekki vel. 

Jóhannes úr Kötlum

------------------------------------------------------------------------------------------------

Þrátt fyrir sterk rök fyrir því að blessaðir jólasveinarnir séu ekki til þá held ég ótrauð áfram að trúa pínulítið á þá og kenna börnunum mínum alla skemmtilegu siðina og sögurnar  sem fylgja þessum skemmtilegu og skrítnu körlum Smile  Þetta er svona hluti af því að ríghalda í barnið í sjálfum sér.  Allavega er það svo hjá mér

Heima hjá mér í gærkvöldi voru bara 2 af krökkunum mínum heima, það elsta og yngsta.  Sá elsti fór pent í það að reyna að fá að vita hvað hann fengi í skóinn, hann vissi jú núna að það værum við sem að settum í skóinn.  Við svöruðum því fljótt og vel að hann yrði að fara þægur að sofa og sjá það svo í fyrramálið hvað það yrði Grin  Litla skottið er ekki alveg farin að fatta þetta en ég held að hún verði fljót að átta sig á þessu næstu daga.

Yngsti guttinn minn hafði sýnt pabba sínum stoltur bréf sem að hann var búinn að skrifa sveinka.  Í bréfinu var einlæg ósk um hvað hann langaði mest í í skóinn, en það var Sony Ericson gsm sími með korti og pin númeri !  LoL  Ofsalega er ég hrædd um að sveinki setji ekki síma í skóinn ......


Blessaður jólasveinninn

Nú er komið að því einu sinni enn að fara að aðstoða blessaðan jólasveininn sem þeytist um allan heim og gefur góðu börnunum í skóinn.  Það er að vísu ekki fyrr en aðra nótt sem að sá fyrsti kemur til byggða, samkvæmt venju er það blessaður karlinn hann Stekkjastaur sem staulast í bæinn. 

Á hverju ári hef ég heitið sjálfri mér því að vera svolítið forsjál og fara í innkaupaleiðangur snemma til að kaupa eitthvað smálegt fyrir sveinka ef hann skyldi ekki hafa tíma til að kíkja við sjálfur Wink  En eins og öll hin árin sem að ég hef heitið þessu klikka ég á því og þarf því þess vegna að kíkja í búð á morgun og redda þessu ......

Tvisvar sinnum hef ég látið tilleiðast og keypt kassa til styrktar einhverju góðu málefni (SÁÁ held ég) en jafnoft hef ég orðið fyrir vonbrigðum með innihald kassans þannig að ég hef gefist upp þeirri leið.   

Heima hjá mér er trúað á þann rauðklædda og litla (stóra) liðið mitt bíður spennt eftir því að setja skóinn út í glugga annað kvöld.  Ég hef lengi velt því fyrir mér með þann elsta hvort hann trúi í raun og veru eða ekki og ef hann trúir hvernig tekur hann því ef að hann lendir í því að einhverjir krakkar leiðrétta þetta við hann eða gera grín að því að hann trúi á sveinka.  Í dag tók ég ákvörðun um að tala við drenginn og segja honum "sannleikann um sveinka".  Í ljósi þess hversu viðkvæmur hann getur verið ákvað ég að útskýra málið fyrir honum sjálf í stað þess að taka sénsinn á því að hann heyrði þetta einhversstaðar þar sem hann fengi ekki næga útskýringu með.  

Þegar drengurinn kom heim úr skólanum í dag ræddum við málið.  Svei mér þá ...... ég held að þetta sé eitt það erfiðaðsta sem að ég hef þurft að útskýra fyrir honum.  En eftir langt og mjög athyglisvert spjall milli okkar mæðginanna virtist hann vera búinn að ná þessu og var sáttur.    Sér í lagi þegar ég var búinn að segja honum að hann hætti ekkert að fá í skóinn þó hann vissi af þessu, þetta yrði bara leyndó okkar á milli svo að systkini hans gætu trúað lengur.  Þau eru jú börn ennþá en hann alveg að verað fullorðinn.   Það var alveg greinilegt á tali drengsins að hann trúði af öllu hjarta þannig að þetta var svolítið erfitt fyrir hann en það var örugglega rétt ákvörðun hjá mér að segja honum þetta sjálf ......

Smá viðbót; fyrir þá sem ekki þekkja til þá er sonur minn sem um ræðir næstum 15 ára gamall og einhverfur.

 


Apótek eru stórhættulegir staðir !

Ég hef lengi átt við þann leiða vanda að stríða að eiga mjög erfitt með að þurfa að bíða mikið eftir afgreiðslu lyfja í apótekum.  Jú, það endar sko yfirleitt með því að ég fer að rölta um staðinn meðan að ég bíð og þá finn ég alltaf (já eða næstum alltaf) einhver bráðnauðsynlegan óþarfa sem ég bara verða að kaupa !  Fer jafnvel inn  með lyfseðil fyrir lyfjum sem ég þarf ekki að borga fyrir en kem samt út 2 - 3000 krónum fátækari ......Pouty  Þess vegna finnst mér þessi apótek vera stórhættulegir staðir !

Ég vann hins vegar mikinn sigur í dag þegar ég fór inn í Rimaapótek, eins og venjulega í þeim erindagjörðum að leysa út lyf fyrir syni mína.  Þegar ég lagði af stað að heiman einbeytti ég mér að því að hugsa og söngla fyrir munni mér "bara ná í lyfin, bara ná í lyfin"  Þetta var svona eins og ég væri að reyna að dáleiða sjálfa mig sko ...... Viti menn, þetta virkaði næstum því alveg.  Ég náði í lyfin og keypti bara einn brúsa af hárnæringu, svona flækjusprey, en þessi nauðsynlegi vökvi er alveg að verða búinn heima hjá mér Grin  


Játningar, veikindi og ýmislegt fleira

Ég ætla að byrja á játningunum.  Þannig er að fyrir nokkru síðan var “komið að máli við mig” og ég hvött til að kynna mér alveg stórskemmtilegan vef, þar sem væri ansi margt skemmtilegt hægt að bralla.  Ég lét tilleiðast, skráði mig á síðuna og skoðaði.  Síðan hef ég varla verið bloggi sinnandi þar sem að ég varð eiginlega alveg um leið “húkkd” á facebook.com.  Þetta er s.s. aðalástæða þess að lítið sést af bloggi frá mér þessa dagana, ja eða kannski vikurnar. 

En að öðru .....

Í gærkvöldi dreif ég mig með honum Óla mínum á jólahlaðborð með vinnunni hans.  Við fórum á Hótel Loftleiðir og snæddum þar alveg frábæran jólamat.  Þetta er annað jólahlaðborðið sem að ég snæði af þessi jólin, hitt var í Perlunni.  Ég verð alveg að játa það að Perlunni ólastaðri þá er hlaðborðið á Loftleiðum mikið betra.  Ókosturinn við kvöldið var staðreyndin sú að ég þurfti að fara í vinnuna klukkan hálf tólf.  Ég hefði betur látið það ógert því að ég er eiginlega búin að vera lasin undanfarna dag, með hálsbólgu og slöpp og ég var eiginlega alls ekki tilbúin til að fara að vinna í þessu ástandi.  Þ.a.l. ákvað ég að melda mig veika á vaktinni í nótt sem að hefði verið sú síðasta í þessari törn.  Næst þarf ég að fara í vinnuna á fimmtudagskvöld og þá hlítur þetta ógeð að verða búið. 

Ég er sko ekki sú eina á heimilinu sem að er lasin.  Í gær fór að bera á bólum á kroppnum á henni Höllu og núna er hún öll útsteypt í bólum, greyið litla.  Óli fór með hana til doksa í dag og fékk það staðfest að um væri að ræða hlaupabóluna.  Hann fékk líka lyfseðil fyrir áburði á þær bólur sem að opnast og verða að sári.  Nú er bara að gluða kremi á opnubólurnar og svo kartöflumjöli á allan kroppinn þess á milli.  Það þurrkar bólurnar svo vel og dregur úr kláðanum.   Núna er bara að finna eitthvað skemmtilegt handa okkur mæðgun að gera fyrir næstu daga meðan að ég verð með hana heima.  Kannski að við reynum að baka svolítið þar sem að það sem búið var að baka fyrir jólin er alveg að verða búið ..... og það er ekki ég sem að stend í þessu eins og kýr í káli !  Krakkakrílin mín eru búin að vera ansi liðtæk í að útrýma smákökum hérna ......

Af holdafari minu er það að frétta að ég er búin að hrista af mér  21,4 kíló og staðan er núna 74,1 kíló og yfir jólin ætla ég að einbeyta mér að því að halda í þessa tölu ...........


Jamm það er kominn tími á blogg ......

Er kannski kominn tími á að blogga svolítið ?  Mér skilst það á þeim örfáu sem farnir eru að kvarta við mig yfir bloggleysinu hjá mér.
Hjá mér er bara það sama og venjulega í gangi.  Börnin, heimilið, vinnan og auðvitað karlgreyið mitt og svo síðast en ekki síst jólaundirbúningurinn. 
S.l. mánudag var jólaball í Hólabergi.  Þarna var svaka stuð og góðir gestir mættu á staðinn.  Eurobandið kom og söng nokkur lög með krökkunum og svo árituðu þau plaköt og þeir sem vildu gátu látið mynda sig með þeim og það var frekar vinsælt eins og gefur að skilja. 

IMG_1134
 Kristján Atli ásamt þeim Regínu Ósk og Friðriki Ómari

Þarna kíktu líka við þeir Kertasníkir og sjálfur Sveppi.  Villi nagbítur átti reyndar að koma líka en hann forfallaðist.

 

DSC07151

 

 

DSC07152

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband