Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
Skipt um gír .......
9.4.2008 | 23:11
Nú er kominn tími á að skipta um gír og blogga smá jákvæðnisblogg. Eins og fram hefur komið þá hafa síðust dagar ekki verið neitt sérlega jákvæðir í mínum augum en ég er að reyna að vinna í Pollýönnunni í mér ........
Síðasta helgi var alveg sérstaklega jákvæð en þá gengu þau Jökull litli bróðir minn og Oddný í heilagt hjónaband. Þetta var fámenn en góðmenn athöfn á alveg yndislegum degi. Þetta var alveg stórskemmtilegur dagur. Jökull smalaði þeim sem boðið var í brúðkaupið saman í rútu. Ja, í rauninni var flestum bara boðið í óvissuferð sem að endaði með brúðkaupi !
Þau eru svo frábær bæði tvö
Bara smella á myndina til að sjá allar hinar ........
Ég er mikið búin að vera að velta fyrir mér smá breytingum á fyrirætlunum mínum í námi. Eins og margir sem mig þekkja vita þá byrjaði ég aftur í skóla í haust með það fyrir markmið að einhverntíman útskrifast sem sjúkraliði. Það markmið hefur svo sem ekkert breyst, ég er bara búin að vera að velta aðeins fyrir mér að breyta aðeins leiðinni að þessu markmiði og læra félagsliðann fyrst. Ég er með það í vinnslu að sækja um í svokallaðri félagsliða-brú hjá Mími símenntun í haust. Svona við fyrstu athugun var útlitið svo sem ekki mjög bjart því að námsráðgjafi hjá Mími sagði mér að ég fengi ekki að byrja í náminu þar sem að ég uppfyllti ekki eitt af þeim skilyrðum sem sett eru til að meiga hefja þetta nám. Skilyrðin eru að vera búinn að ná 22 ára aldri, vera búinn með fagnámskeið I og II og vera með 3 ára starfsreynslu í aðhlynningu. Ég er búin að ná aldurstakmarkinu og gott betur en það, fagnámskeið I er ég búin með og lýk fagnámskeiði II n.k. fimmtudag en starfsreynsluna hef ég ekki þannig að nú er ég að vinna í því að fá undanþágu til að hefja námið því að þegar að því líkur verð ég örugglega komin með öll árin 3, þar sem að þegar og ef ég fæ að hefja námið í haust verð ég komin með 2 ára reynslu og vinn það þriðja inn meðan á námstímanum stendur. Ég held að þetta sé hreint ekki svo vitlaust .......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mér er ekki runnin reiðin ......
8.4.2008 | 21:16
Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Eins og síðasta færsla hjá mér sýndi þá var mér verulega misboðið að sjá fréttina á forsíðu DV í gær. Mér var eiginlega meira en misboðið, ég varð reið, sár, svekkt og vildi helst ekki trúa því að þetta væri staðreynd. EN þetta er víst staðreynd, svo mikið er víst.
Dagurinn í dag er búinn að fara í að hringja út um allt og leita leiða til að bjarga því sem bjargað verður fyrir sumarið svo og að spyrjast fyrir og tryggja að þetta fengi umfjöllun í fjölmiðlum. Fréttastofa sjónvarpsins tók vel í ábendingu frá mér og báðu mig um að koma í viðtal, sem og ég gerði, þar sem að þetta bitnar allverulega á okkur. Í fréttatímanum núna í kvöld var svo fjallað um málið, sýnt viðtalið við mig og svo viðtal við Ólaf F Magnússon, borgarstjóra.
Hér má sjá viðtalið inni á ruv.is
Eins og fram kemur í máli Ólafs þá hefur hann ríkan skilning á því að foreldrar fatlaðra barna 10 - 16 ára séu áhyggjufull ef það hefur verið gefið í skyn að það væri einhver óvissa um þetta o.s.frv. Hvað er eiginlega að manninum ? Ætli hann haldi að við séum öll vanvitar. Ósk um aukafjárveitingu sem fara átti í að reka frístundaklúbba fyrir fötluð börn á aldrinum 10 - 16 ára var synjað. Auðvitað veldur það áhyggjum hjá manni þegar maður fær þær upplýsingar hjá ÍTR að ef að af þessu verður og ekkert fjármagn fæst þá sé ekkert í boði !
*************************************************************
Tekið af visir.is:
Stuðningur við rekstur frístundaheimila aukinn um 56 milljónir
Reykjavíkurborg vill koma því á framfæri að með samþykkt borgarráðs þann 7.apríl s.l var verið að auka stuðning við fötluð börn á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar frá því sem fjárhagsáætlun ársins 2008 gerði ráð fyrir, en ekki verið að draga úr honum eins og hermt er á forsíðu DV þann 7. apríl.
Af þeirri 56 millj. kr. aukafjárveitingu sem ÍTR fær til reksturs heilsárs frístundaheimila renna 31,7 millj. kr. til stuðnings barna með sérþarfir. Með þessari fjárveitingu og fjármunum sem fyrir eru í fjárhagsáætlun ÍTR verður kleift að reka frístundaheimili í sumar þannig að þau verði rekin á heilsársgrunni.
ÍTR hóf rekstur Frístundaklúbba fyrir fötluð börn á aldrinum 10 til 16 ára sl. haust í samræmi við samkomulag milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytis um þjónustu við fötluð grunnskólabörn í 5. - 10. bekk.
Borgarstjóri mun á næsta fundi borgarráðs leggja fram tillögu um að teknar verði upp viðræður um frekari þróun þjónustunnar sem tryggi fötluðum börnum 10 til 16 ára dvöl í Frístundaklúbbum yfir sumartímann.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.
*******************************************************
Textann hér fyrir ofan sem að ég hef litað rauðan skil ég bara ekki. Það er búið að þróa alveg frábært starf fyrir þessi börn og hefur það verið starfrækt síðan í haust ! Hvar hefur Ólafur eiginlega verið að leyta sér upplýsinga ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ég á ekki til orð !
7.4.2008 | 18:01
Nú er ég brjáluð og þetta hér er ástæðan:
Hvað er eiginlega að í þessu kerfi okkar ? Ég er eiginlega of reið til að skrifa meir ....... reyni aftur þegar ég er orðin rólegri .......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Brotin tönn og bloggleysi .....
4.4.2008 | 01:39
Kominn tími á smá blogg frá mér. Ég hef bara verið eitthvað svo andlaus undanfarna daga að ég hef bara ekki haft mig í að blogga eitthvað ..... Ég hef svo sem ekki setið auðum höndum, það er alls ekki svo, bara alveg hellingur að gera hjá mér. Börnin mín, heimilið, vinnan, skólinn, námskeið og svo fær karlgreyið mitt smá athygli þegar ég hef afgangs tíma.
Eins og glöggir lesendur geta séð þá er þessi færsla skrifuð um miðja nótt sem er vegna þess að ég er í vinnunni og það er frekar lítið að gera akkúrat núna og hvað er þá betra en að blogga smá ? Ehemm, það væri kannski betra að vera að skrifa ritgerð í siðfræðinni ? Well ég held bara áfram í því þegar að blogginu lýkur .......
Núna er ég á þriðju og síðustu vaktinni í þessari lotu hjá mér. Þetta eru búnar að vera ansi strembnar vaktir á ýmsan hátt sem ég fer ekki nánar út í hér. Nema hvað um miðja síðustu nótt var ég í sakleysi mínu að fá mér obbolítið ópal þegar að það brotnaði hjá mér tönn ! Já hún fór alveg í tvennt, bölvuð ! Þetta varð til þess að þegar ég kom heim af vaktinni varð ég að bíða til klukkan 9 til þess að geta pantað akút-tíma hjá tannsa til að gera við tönnina. Á slaginu 9 hringdi ég geyspandi í tannsa og fékk hjá honum tíma klukkan hálf fjögur í dag. Ég náði svo að sofa í rúma 2 klst áður en ég þurfti að mæta á námskeið. Varð reyndar að rjúka þaðan út fyrr en ætlað er til að mæta hjá tannsa. Núna kom sér vel að mamma er í heimsókn hjá okkur og hún sótti litlu skottuna í leikskólann meðan ég var hjá tannsa.
Well siðfræðiritgerðin bíður .....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)