Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
Verkur í veskjum .....
31.1.2008 | 05:48
Í dag fór Kristján Atli í fyrstu ferðina sína til tannréttingasérfræðings. Drengurinn var búinn að bíða spenntur eftir þessum tíma en þegar á hólminn var komið varð hann held ég bara fyrir vonbrigðum. Þetta var sennilega ekki jafn spennandi og hann hélt. Ég fór reyndar ekki með hann sjálf því að ég var á næturvakt s.l. nótt þannig að pabbi hans fór með hann. Þegar ég svo heyrði í pabbanum var ekki laust við að hann væri kominn með obbolítinn verk í veskið sitt eftir að hafa setið á biðstofunni og fylgst með þegar fólk var að koma út frá tannsanum og borga ..... þarna voru á ferðinni ansi háar upphæðir Ég held nú samt að ég hafi náð að róa hann svolítið þegar ég sagði honum að það væri lán í óláni að strákurinn er svolítið "gallaður". Það vantar nefnilega í hann 4 fullorðinstennur. Þær vantar alveg þannig að þær eru ekki einu sinni á leiðinni ....... og þetta er ein af þeim forsendum sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir stærri hluta af tannréttingameðferð ........ En sjitt hvað þetta er dýrt að láta laga í sér tennurnar ! Tannlæknirinn sagði að svona réttingar væru á bilinu 400 - 600 þúsund !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Guði sé lof fyrir að kjötsúpan er búin .....
28.1.2008 | 20:11
..... sagði unglingurinn minn hann Kristján Atli við mig núna eftir kvöldmatinn og hann sá að loksins var kjötsúpan búin. Ég eldaði nefnilega vænan skammt af þessum yndælismat í gær því eins og flestir (nema kannski Kristján) vita þá er kjötsúpa bara betri upphituð. En blessuð kjötsúpan er alls ekki uppáhaldsmaturinn hans Kristjáns og þegar ég tek uppá því að elda þetta fæ ég alveg að heyra að þetta er ekki vinsælt. Já hann Kristján minn segir upphátt við mig það sem kannski sumir myndu láta sér nægja að hugsa ..... Hann er bara svo hreinskilinn þessi elska
Ég kom heim úr vinnunni um klukkan hálf níu í morgun og þegar ég hafði þvegið mér, burstað tennur og komið mér vel fyrir í rúminu mínu og orðið heitt á fótunum hringdi síminn. Þetta var kennarinn hans Kristjáns hún Ragna að láta mig vita að unglingurinn væri orðinn veikur. Hann væri náfölur, með hausverk og léti mjög illa af sér. Það var svo laaaaangt frá því að ég nennti undan sænginni minni þannig að ég hringdi í Óla og betlaði það út úr honum að sækja drenginn og koma honum heim. Og auðvitað lét þessi elska hann Óli minn þetta eftir mér Þegar Kristján kom heim skreið hann beina leið uppí til mín og sofnaði hjá mér. Það er víst ennþá gott að kúra í mömmu rúmi þegar maður er svolítið lasinn, þrátt fyrir að vera orðinn 14 ára ........ Ég vaknaði næst þegar Kristján ýtti við mér og sagði: "Mamma klukkan er miklu meira en hádegi og ég er svangur". Þá var klukkuskömmin orðin 14 þannig að ég dreif mig á fætur og tók til mat handa okkur og dreif mig svo í ræktina
Lena systir og Elísa Sif kíktu svo við hjá okkur seinnipartinn á leið þeirra út úr bænum. Þær eru búnar að vera sunnan heiða í 2 daga því Elísa er búin að vera hjá talþjálfa. Nú er Elísa frænka bara orðin svo dugleg að hún er víst útskrifuð frá talþjálfanum Til hamingju með það kæra frænka
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Nýjar myndir .......
27.1.2008 | 06:16
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Góðar fréttir .... Unglingar eru ekki fólk ......
26.1.2008 | 04:40
Þegar Sigtryggur kom heim úr skólanum í dag stormaði hann inn í eldhús í útigalla og öllum gírnum og sagði: "Ég hef góðar fréttir, ég hélti dúfu !" Minn maður hafði farið með frístundaklúbbnum niður í bæ og þar hafði hann fengið að halda á dúfu og eins og þeir sem þekkja hann Sigtrygg minn þá er fátt sem gleður hann meira en svona tækifæri
Í morgun fór unglingurinn minn hann Kristján aftur í skólann eftir veikindi. Hann er búinn að vera heima í 2 daga með hita. Ekki veit ég hvað olli þessum hita því hann er ekki með kvef eða nein slík einkenni. Á fimmtudagskvöldið spurði hann mig hvort ég væri viss um að það væri allt í lagi að hann færi í skólann morguninn eftir og ég svaraði því til að það væri sko örugglega allt í góðu lagi. Þá viðurkenndi hann að hann var að vona að hann "græddi einn enn frídag frá skólanum" ......... Já svona er að vera unglingur
Og minnst á unglinga ....... amma Gunna sagði mér í dag að í morgun hefði hún vaknað við að Sigurjón Stefán kemur inn til hennar og segir: "Þetta voru sko ekki fólk. Þetta voru unglingar !" Hann hafði kveikt á sjónvarpinu og séð fréttirnar frá því kvöldinu áður þar sem sýnt var frá uppþotinu á áhorfendapöllum í ráðhúsinu. Svona er nú það, unglingar eru sko ekki fólk. Allavega ekki í augum Sigurjóns Stefáns
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Draumur um afa
23.1.2008 | 22:44
Einu sinni sagði Grímur afi minn heitinn að honum dreymdi stundum fyrir því hvernig veðrið yrði. Þá dreymdi hann hesta og veðrið réðst af því hvernig hestarnir voru að lit í draumnum. Ég vildi óska að ég hefði lagt betur á minnið það sem hann sagði mér um litina og hvað hver þeirra þýddi því að í nótt dreymdi mig afa. Draumurinn var snerist samt voða lítið um afa sjálfan heldur var ég að hjálpa honum með rauðan hest sem að hann hafði komið með heim á Garðabyggðina. Hesturinn var veikur og það var mikið bras í kringum hann og svo endaði draumurinn á að hesturinn var felldur inni í bílskúrnum hans afa. Hvað skyldi þetta þýða ?
Í gær kom Kristján Atli heim úr skólanum fremur daufur og þreytulegur. Fljótlega kom það í ljós að hann var kominn með háan hita. Þar sem að karlanginn var með rúmlega 40 stiga hita í gærkvöldi fór hann auðvitað ekkert í skólann í dag, sem að b.t.w honum fannst sko ekkert slæmt ........ Eitt af því fyrsta sem að ég gerði í morgun var að mæla hann hitalausann ! Í dag er hann svo búinn að vera eins og ekkert hafi í skorist, hressari sem aldrei fyrr ! En til að vera viss mældi ég hann svo aftur núna áðan og kallinn er með 38 stiga hita ...... Þannig að ekki fer hann í skólann á morgun, honum til mikillar gleði. Það er svona að vera unglingur.
Í gærkvöldi fór ég á ansi skemmtilegan fund. Þetta var opinn fókus-fundur en Fókus er félag áhugaljósmyndara. Þarna voru samankomin allskonar fólk allir með myndavéladellu á mjög háu stigi. Það fyrsta sem að ég gerði þegar að ég kom heim var að fara á netið og skrá mig í félagið og borga árgjaldið ! Þetta er mjög virkt og skemmtilegt félag. Þau fara allskonar ferðir, setja upp ljósmyndasýningar og þarna eru allir tilbúnir að hjálpa náunganum og segja til. Ekkert smá spennandi ! T.d. þá verður sýning á vegum félagsins opnuð í Kringlunni þann 7. febrúar. Sýningin er í tengslum við vetrarhátíð í Kringlunni, stendur frá 7. - 14. febrúar og ber heitið Svart/hvítt í fókus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mamma, ég er kvikmyndagerðarmaður ......
21.1.2008 | 21:08
"........ég er svona Landmark" Þetta sagði Sigtryggur minn um leið og hann hrundi inn úr dyrunum eftir skóla og frístund í dag. Umrædd kvikmyndagerð er s.s. lítil "clip" sem hann gerir með digital myndavélinni sinni. Gunna amma hans gaf honum myndavél í haust og hefur hann verið að nota gripinn mikið upp á síðkastið. Síðast í gær uppgötvaði hann að hann gæti tekið svona smá "clip" og skoðað það svo í tölvunni. Í morgun fékk hann svo að fara með myndavélina í skólann og kom heim með slatta af myndbrotum til að skoða Þess má geta að uppáhaldsþátturinn hans Sigtyggs í sjónvarpinu eru Dýravinir á skjá 1 sem að Landmark kvikmyndagerð (Dúi Landmark) framleiðir
Eitt af kvikmyndaverkunum hans Sigtryggs síðan í dag. Þarna má sjá gullfiskana í sérdeildinni
Sigtryggur kom líka með 10 stykkja eggjabakka fullan af eggjum heim úr skólanum ! Hann hafði fengið í verðlaun í einu "stjörnukerfinu" að fara í heimsókn í Elliðahvamm, en þar er eggjaframleiðsla og kjúklingaframleiðsla. "Steini í Hvammi, sem þekkir afa minn, gaf mér egg!" sagði Sigtryggur við mig mjög upprifinn og sýndi mér eggin. Ég veit ekki hvort honum þótti merkilegra að fá eggin eða að bóndinn skyldi þekkja afa hans
Núna er alveg að koma að því að þátturinn af Dýravinum sem að Sigtryggur tók þátt í verði sýndur. En hann verður frumsýndur sunnudaginn 3. febrúar n.k. klukkan 20
Að lokum er svo ein af ljósmyndunum sem að Sigtryggur er búinn að taka. Þessi mynd er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Heimsókn í Skaftholt
20.1.2008 | 00:22
Ég á mér marga drauma og einn af þeim er að Sigtryggur Einar geti búið í sveit í framtíðinni. Það eru mörg ár síðan að ég hugsaði fyrst út í það en eftir þvi sem að árin líða sannfærist ég alltaf betur og betur að sveitin er það eina rétta fyrir hann í framtíðinni.
Fyrir nokkrum mánuðum síðan sá ég fyrir algera tilviljun þáttinn Út og suður í sjónvarpinu. Í þessum þætti var viðtal við fólkið sem rekur sambýlið í Skaftholti í Þjórsárdal. Eftir að ég sá þáttinn gat ég ekki hægt að hugsa um það hvort þetta væri ekki staður eins og ég var búin að láta mig dreyma um fyrir Sigtrygg. Í desember lét ég verða að því að hringja í Skaftholt og spjalla við fólkið. Ég átti langt og gott spjall við Atie Bakker sem endaði á því að við ákváðum að fara í heimsókn í Skaftholt í janúar. Sigtryggur komst að þessari ætlan okkar, þ.e. að heimsækja þessa sveit, og það er ekkert lítið sem drengurinn er búinn að vera spenntur ! Enda eru heimsóknir í sveit það allra skemmtilegasta sem hann gerir. Þegar hann komst að þessu var honum sagt að við færum þangað í janúar. Þessi óljósa tímasetning voru alveg nægar upplýsingar fyrir hann alveg þangað til að 1. janúar rann upp. Þá um morguninn var eitt af því fyrsta sem hann sagði: Kominn janúar, heimsækja Skaftholt. Í byrjun janúar fór svo að bera á því að Sigtryggur átti mjög erfitt með að sofna á kvöldin. Hann var að sofna mjög seint eða á milli klukkan 12 á miðnætti og alveg til 2 á nóttunnni. Þetta var búið að koma fyrir í nokkur skipti þegar við fórum að spá í hvað í ósköðunum væri að. Þá rann upp fyrir mér að það var að valda honum svefnleysi og óróleika að hann vissi ekki hvaða dag hann færi í Skaftholt. Þegar mig fór að gruna að þetta væri ástæðan hringdi ég í Skaftholt og ákvað hvaða dag við færum. Það var eins og við manninn mælt að þegar Sigtryggur fékk að vita að þann 19. janúar færum við þá steinhætti þessi vanlíðan hjá honum og hann fór að sofna á eðlilegum tíma á kvöldin.
Í morgun rann svo langþráður dagur upp ! Rétt fyrir hádegi fórum við til afans og ömmunnar í Heiðarseli þar sem við vorum boðin í hádegismat. Matarlystin var ekki mikil hjá Sigtryggi svo mikill var spenningurinn. Þegar Sævar pabbi hans var svo kominn til okkar í Heiðarselið og við öll búin að fá kaffi eftir matinn var svo LOKSINS lagt af stað og Halla Katrín skilin eftir hjá afa og ömmu.
Vegna veðurs og færðar undanfarna daga fengum við pickupinn hans tengdapabba lánaðan og héldum af stað. Í stuttu máli sagt þá var þessi heimsókn alveg yndisleg í alla staði. Atie tók á móti okkur ásamt einni af þeim sem býr þarna. Atie sýndi okkur húsið en Sigtryggur hafði lítinn áhuga á því og lét það alveg í ljós að hann var meira að bíða eftir því að sjá útihúsin og dýrin. Eftir að hafa farið rúnt um svæðið skoðað fjósið, fjárhúsin og hænsnahúsið fórum við inn aftur og fengum kaffi, smákökur og smakk af osti sem búinn er til á staðnum og spjölluðum við Atie og nokkra af heimilisfólinu. Þessi staður alveg yndislegur. Þarna býr gott fólk. Sigtryggur fékk að fara aftur í fjárhúsið en svo var kominn tími til að fara heim og það var hann alls ekki sáttur við. Ég er nánast viss um að honum hefði verið nokkuð sama þó við hefðum skilið hann eftir þarna .......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Garnagaul og nýjar myndir
19.1.2008 | 00:25
Samhliða því að taka mig á og byrja í ræktinni hef ég verið að taka sjálfa mig í gegn hvað varðar mataræði. Minn helsti veikleiki er að borða ALLT OF MIKIÐ ! Þannig að þessa dagana er ég að taka neysluvenjur mínar í algera naflaskoðun og skera niður á hinum ýmsu sviðum. Fyrst og fremst er að nú fæ ég mér bara einu sinni á diskinn í stað þess að fá mér 2 - 3 sinnum og mikið í hvert skipti ..... Þetta verður samt til þess að ég er nánast alltaf svöng og það líður ekki sú stund að ég spái ekki pínulítið í því hvort það geri nú nokkuð til þó ég fái mér bara obbolítinn aukabita ...... En sem betur fer þá fer það ekkert lengra hjá mér en að spá í það og vonandi hættir þessi ógeðslega svengdartilfinning fljótlega Nú er bara að harka af sér og reyna að venja sig af öllum ósiðum hvað matinn varðar ....
Mér hafa borist nokkrar kvartanir yfir því hvað ég hef verið löt að setja inn nýjar myndir í albúmið okkar. Ég er búin að bæta aðeins úr því frá því rétt fyrir jól þannig að HÉR er hægt að sjá nokkrar myndir síðan á jólunum, áramótunum og svo það nýjasta eru myndir úr afmælinu hans Kristjáns Atla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggedí blogg frá Bakkastöðum
17.1.2008 | 20:55
Djöfull er það pirrandi að geta ekki komið orði að neinu þegar manni langar að skrifa svo ótal margt ? Mér finnst ég hafa alveg helling að segja en ég bara kem ekki orðum að því.
Fyrr í vikunni skráði ég mig aftur í skólann eða allt svo skráði mig í 3 fög í fjarnáminu. Námsráðgjafinn var búinn að ráðleggja mér að taka 4 fög en þar sem að ég fer á annað námskeið sambærilegt því sem að ég var í fyrir áramót þá þótti mér það ekki ráðlegt að taka svo mörg fög í skólanum. Maður verður jú að hafa tíma fyrir börnin, karlinn og heimilið. Já og vinnuna kannski smá ....... Fögin sem urðu fyrir valinu eru náttúrufræði 123, siðfræði 102 og næringarfræði 103. Ég er búin að skrá mig, borga og kaupa bækurnar þannig að nú er bara að bíða eftir því að fjarnámssvæðið opni en það verður þann 22. janúar.
Í gær fór Kristján Atli í Hólaberg í sína mánaðarlegu vist þar. Þar af lleiðandi er voðalega rólegt í kotinu. Það er svo skrítið að þegar þeir bræður eru sitt í hvoru lagi þá dettur allt í dúnalogn á heimilinu.
Í gær fór ég á fyrsta samráðsfundinn eftir áramót. Eða allt svo ég ætlaði á þann fund en þegar ég mætti á staðinn var mætingin svo léleg vegna veikinda og annarra ástæðna að fundinum var blásið af í bili og annar fundur settur eftir nokkra daga. Ég notaði nú samt tímann til að rabba svolítið við einhverfuráðgjafann hjá svæðisskrifstofunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Litla barnið mitt orðið 14 ára !
12.1.2008 | 21:12
Ég er svoooona stór ! Þessi mynd er tekin af frumburðinum fyrir ca. 12 1/2 ári síðan. Nú er drengurinn er sko orðinn mjöööööög stór alveg án þess að teygja hendurnar hátt í loft
Unglingurinn minn er orðinn 14 ára ! Það var reyndar klukkan 02:35 s.l. nótt sem hann varð 14 ára þessi elska.
Elsku Kristján Atli til hamingju með daginn
Kristján tók á móti gestum í dag og fór svo sæll og ánægður heim til pabba síns eftir veisluna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)