25 dagar til jóla
29.11.2006 | 21:05
Jólin nálgast óðfluga eða eins og hún frænka mín hún Sif sagði ...... "þau nálgast eins og óð fluga" Ég er samt ekki enn farin að verða vör við neitt svokallað jólaskap. Jú kannski smávegis og þá aðallega í formi þess að rifja upp hvar jólaskrautið sé í veröldinni og hvar jólageisladiskarnir séu ? Það fer að líða að því að ég kvelji þá sem í kringum mig eru með stanslausri jólatónlist Strákarnir eru farnir að velta jólunum fyrir sér og hafa nokkrar spurningar um jólasveinana verið bornar upp við mig. Svo sem eins og "Fyrst að jólasveinarnir eru svona gamlir, fara þeir þá ekki að deyja bráðum ?" og "Hvað þarf maður að vera orðinn gamall til að fá í skóinn ?" Í framhaldi af seinni spurningunni kom svo: "Mér finnst að Halla Katrín eigi að fá líka í skóinn þó hún sé svona lítil og geti ekki kíkt í skóinn sjálf" Það er stóri snillingurinn minn hann Kristján Atli sem bar þessar spurningar upp við mig
Ég er búin að taka eina stórákvörðun fyrir þessi jól og hún er að baka ekki eina einustu köku fyrir jólin. Ég fór að velta því fyrir mér til hvers ég væri að baka þessar blessuðu smákökur og komst að þeirri niðurstöðu að smákökurnar væru alveg óþarfar þar sem strákarnir mínir hafa aldrei verið hrifnir af þeim og við Óli erum þau einu sem borðum þær hérna heima og það vita flestir að við höfum alls ekki gott af því að borða smákökur ...... En þið sem hafið hug á að heimsækja okkur yfir hátíðarnar óttist ekki veitingaskort þó smákökurnar vanti þá get ég alveg skellt í eina hnallþóru já eða ostaköku
Í morgun þegar ég var á leiðinni upp í Grafarholt með Höllu Katrínu í pössun var svínað alveg skelfilega fyrir bílinn hjá mér Ég náði að bremsa í tæka tíð og það var alveg örugglega ekki bílstjóra /&%#&%#%$/#/$ fávitanum á hinum bílnum að þakka að ekki varð árekstur ! Ég varð alveg brjáluð ! og ekki skánaði skapið við það að átta mig á því að bíllinn sem svínaði á mig var einn af skólabílunum sem keyra m.a. syni mína í og úr skóla. Fyrsta hugsunin var að ná helvítinu og hella mér yfir hann en ég hætti snarlega við það og hringdi frekar í yfirmann þessa ökuníðings og klagaði þetta aksturslag. Ég náði númerinu á bílnum þannig að það ætti að vera einfalt að veita ökumanninum tiltal fyrir athæfið. Það er alveg á hreinu að ég kæri mig ekki um að svona aksturslag með mín börn innanborðs
~Anna~
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.