Illt í eyðsluklónni og ýmislegt fleira
2.10.2007 | 02:30
Það er alveg rosalegt að fá illt í eyðslukónna. Um helgina fór ég í Office1 og keypti mér nýjan prentara. Gamli prentarinn minn er orðinn ansi aldurhniginn þannig að erindið var aðallega að kaupa prentara en ég endaði með að kaupa mér svona "all-in-one" tæki sem er allt í senn prentari, skanni, ljósritunarvél og kortalesari Mjög svo hentugt þar sem að tölvuaðstaðan mín er komin inn í litlu geymsluna (þar sem frystikistan mín heitin var) í mjög svo takmarkað pláss.
Nú svo er það stóra eyðslusemin sem er svo sem ekki mikil eyðslusemi því að í kringum næstu helgi fáum við nýja bílinn okkar Það er svona Hyundai "harmleikur" Trajet eins og er hérna á myndinni til hliðar. Nákvæmlega eins og gamli bíllinn okkar nema bara nýr "úr kassanum" Okkar bíll verður reyndar ekki með topplúgu eins og sá sem er á myndinni.
Það reyndar ekki eyðslusemi að endurnýja bílinn, finnst mér allavega. Sá gamli er kominn á tíma og það fer að koma að miklu viðhaldi á hann og þá er alveg eins gott að selja hann bara og kaupa nýjan.
Í dag þurfti ég að fara með Kristján Atla til læknis því önnur stóratáin var farin að bólgna og roðna meira en góðu hófi gegnir. Strákormurinn hefur þann ljóta ávana að plokka í táneglurnar svo mikið að honum hefur tekist að plokka megnið af einni nöglinni af. En plokkið hefur orðið til þess að nú var nöglin orðin inngróin og komin ígerð og ullabjakk í allt saman Læknirinn ákvað að taka hluta af nöglinni í burtu og hreinsa svæðið í stað þess að setja hann á sýklalyf og sagði það í flestum tilfellum vera besta lausnin á svona vanda. Hún tók jafnframt undir það með mér svona til að kenna stráknum smá lexíu að til að losan við svona yrði hann að hætta alveg að plokka í táneglurnar á sér. Til að klippa nöglina og hreinsa varð auðvitað að deyfa tánna og gekk það ekki alveg snurðulaust fyrir sig. Ég og læknirinn reyndum að sannfæra Kristján um að hann yrði að vera alveg kyrr og þá tæki þetta fljótt af en skelfingin á strákgreyinu var svo mikil að við urðum að ná í hjálp til að halda honum svo hægt væri að deyfa tánna Það er svo erfitt að þurfa að halda þessum greyjum. Deyfingin var fljót að virka og eftir smá stund var Kristján farinn að biðja mig að "taka plastið af tánni" en hann sá fljótlega að það var ekkert plast á tánni heldur var þetta skrítin tilfinning út af deyfingunni. Ég settist svo hjá honum þannig að ég skyggði á hvað læknirinn var að gera og stráksi varð eiginlega ekkert var við þegar hún klippti og hreinsaði. Vonandi verður þetta til þess að stráksi hættir að plokka ........
Að lokum langar mig að geta þess að það eru aðeins 17 dagar þangað til að ég fer til BOSTON
Athugasemdir
Duglegur strákur hann Kristján en stundum þarf einmitt eitthvað svona hræðilegt til þess að kenna manni að hætta slæmum ávana :(
Til hamingju með nýja bílinn! Langar bara aðeins að benda á smá þýðingarvillu, harmleikur er á ensku tragedy en skv. orðabók þá þýðir trajet = journey -a distance travelled, especially over land; an act of travelling ok ég veit ég er leiðinleg en mér finnst þetta bara ennþá betri lýsing á heimilisbílnum, ekki satt?
Anna Málfríður (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 09:56
Takk fyrir þýðingarleiðréttinguna ....
Anna Gísladóttir, 2.10.2007 kl. 12:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.