Bakkastaðaannállinn 2008
1.1.2009 | 06:10
Gleðilegt ár kæru bloggvinir, vinir, ættingjar og aðrir sem að slæpast inn á þessa síðu Hafið öll þökk fyrir innlit, comment og allt hitt á nýliðnu ári.
Síðasta ár var bæði viðburðaríkt og skemmtilegt hjá mér og minni fjölskyldu og ber þar hæst að frumburðurinn var fermdur í mars og svo í júlí fór öll fjölskyldan til Danmerkur í sumarhús.
Stiklað á stóru yfir það herrans ár 2008:
Janúar: Áramótaheitið hjá frúnni var að hefja líkamsrækt taka upp nýja og betri lífshætti. Ég stóð við heitið og keypti mér kort í World Class og byrjaði að æfa. Til að fara nú almennilega af stað fékk ég mér (í félagi við aðra) einkaþjálfara.
Þann 12. janúar varð frumburðurinn minn hann Kristján Atli 14 ára.
Þann 19. janúar fórum við í heimsókn í Skaftholt. En það er sambýli fyrir fatlaða austur í Árnesi.
Febrúar: Febrúarmánuður gekk svo sem frekar tíðindalaust fyrir sig. Flestir í fjölskyldunni fengu smá flensupest sem að tók sem betur fer ekki langan tíma. Við skruppum norður á Blönduós í vetrarfríi strákanna og höfðum það gott þar í nokkra daga. Stærstu fréttir mánaðarins voru nú samt að pabbi seldi sveitina okkar, Efri-Mýrar. Salan fór fram í mánuðnum en afhending var áætluð í vor.
Mars: Stór mánuður þar. Í byrjun marsmánaðar skrapp ég til London ásamt systrum mínum, mömmu, mágkonu og frænku og vinkonum. Páskarnir komu um miðjan mánuðinn og á annan í páskum var svo frumburðurinn minn hann Kristján Atli fermdur. Hann fermdist í Langholtskirkju ásamt nokkrum bekkjarfélögum sínum og stóð hann sig með stakri prýði allan fermingardaginn. Það munaði nú samt litlu að illa færi með ferminguna því að nóttina fyrir stóra daginn veiktist ég og mamma líka. Við fengum báðar alveg heiftarlega í magann en sem betur fer fór þetta allt saman vel. Kristján var himinsæll með daginn og við foreldrarnir að rifna úr stolti af stráknum.Þann 30. mars varð svo grjónið mitt hann Sigurjón Stefán 8 ára.
Apríl: Stærstu viðburðir aprílmánaðar voru án efa brúðkaup þeirra Jökuls og Oddnýjar. Fámennt og alveg yndisleg athöfn með miklu fjöri þann daginn
Þann 25. apríl varð svo stelpuskottið mitt hún Halla Katrín 2 ára
Maí: Skólinn kláraðist hjá mér og endaði það með 7 í næringarfræði og 8,6 í siðfræði.
Júní: Í byrjun júní fórum við vestur á firði og heimsóttum afa og ömmu á Þingeyri. Við leigðum okkur ásamt Völu, Gumma og krökkunum "sumarbústað" sem er gamall sveitabær sem heitir Múli. Alveg stórskemmtileg ferð sem að ég er alveg til í að endurtaka í vor.
Júnímánuður var tími undirbúnings fyrir ferðalagið okkar til Danmerkur. Það er jú að mörgu að hyggja þegar maður skreppur í hálfan mánuð í sumarhús til DK með 6 manna fjölskyldu.
Júlí: Þann 4. júlí lögðum við í'ann til Danaveldis. Í stuttu máli sagt þá var þetta alveg yndisleg ferð sem að við getum þakkað pabba mínum og mömmu mikið fyrir að heppnaðist svona vel því þau fóru með okkur og hjálpuðu okkur allan tímann.
Á meðan við vorum í Danmörku héldum við uppá 2 afmæli en þann 16. júlí varð pabbi minn ...... ári eldri og þann 18. varð hann Sigtryggur minn 12 ára
Ágúst: Skólinn byrjaði á ný og alvaran tók við hjá stærri hluta fjölskyldunnar. Strákarnir í sínum skólum og ég byrjaði í Mími símenntun á Félagsliðabrú.
Í byrjun mánaðarins tók ég ákvörðun (og stóð við'ana) að hætta að vera styrktaraðili World Class og byrja að nota kortið mitt (sem ég fékk mér í janúar muniði .......) Helv... vigtin var farin að sýna 95 +
September: Lífið gekk sinn vanagang .........
Október: Kláraði þetta eina fag sem að ég tók í skólanum þessa önnina. Það var félagsleg virkni og endaði hún með 8,5
Blessuð vigtin sýndi mér loksins tölu sem byrjaði á 7 (79,5 kg)
Nóvember: Þann 10. nóvember varð ég 35 ára og í tilefni þess hélt ég obbolítið teyti þann 9. sem lukkaðist alveg með ágætum
Desember: Blessuð jólin með öllu því sem þeim fylgir .......
Athugasemdir
Gleðilegt nýtt ár, og takk fyrir það gamla.
Afi úr sveitinni (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 09:28
Gleðilegt ár Anna mín ..
Kveðja Inda
Inda (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 14:05
Gleðilegt nýtt ár til þín og þinna!
Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir, 1.1.2009 kl. 16:25
Takk fyrir skemmtilegann annál, það er alltaf gaman að geta fylgst með á hliðarlínunni. Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla, svo er bara að standa við stóru orðin og við munum hittast yfir bolla og spjalla á árinu, þótt fyrr hafi nú verið.
Kv. Seinniparturinn úr AnnaMaría
maria Sif (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 16:30
Gleðilegt ár elsku fjölskylda
Berta María Hreinsdóttir, 1.1.2009 kl. 20:30
Gleðilegt ár kæra fjölskylda og takk fyrir það gamla.
Magga Bjarna í Noregi (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.