Komin heim og páskarnir búnir

Ég kom heim með familíuna mína eftir páskaferð ársins á þriðjudagskvöld.  Ferðin sú var ekki að öllu leyti skemmtiferð því að á þriðjudaginn fylgdum við Grími afa mínum síðasta spölinn. 

Dagurinn sá byrjaði ekki vel svona veðurlega séð því það fyrsta sem ég sá þegar ég leit út var hríðarél og frekar dimmt Frown  Ekki ákjósanlegt veður til jarðarfarar ....... en fyrir hádegi birti til og þegar að jarðaförinni kom var komið besta veður, kalt og sólskin.   Það var gott að ylja sér við minninguna um allar ferðirnar okkar afa út að spá í skýin á þessum degi.  Afi kenndi mér nefnilega á sínum tíma að lesa í skýin en það að lesa skýin var hluti af veðurathuguninni sem hann sinnti í fjölda mörg ár og ég lærði af honum og leysti hann af meðan að ég bjó við hlið hans á Garðabyggðinni. 


Það verður í meira lagi skrítið að koma norður á Blönduós í framtíðinni án þess að kíkja við í kaffi og spjall til afa.  En þrátt fyrir að við söknum hans mikið þá er það gott að hann er laus við þjáningar og kominn í faðm ömmu Sellu aftur.  Myndin hérna að ofan er tekin í september s.l. í einum af fyrstu ferðum Höllu Katrínar norður á Blönduós.  

Guð geymi þig elsku afi og berðu Sellu ömmu okkar bestu kveðju.

 

Eftirfarandi stökur fékk ég sendar í dag.  Þær eru eftir fyrrverandi bekkjarfélaga minn í grunnskóla, Einar Kolbeinsson.  Einar var staddur við jarðaför Gríms afa og og þar urðu stökurnar til.

Nú er ekki nema von,
þó niðjar tárin felli,
því nú er Grímur Gíslason,
genginn burt af velli.

Lesmál dýrt í lífsins bók,
löngum dyggur skráði,
og ferskeytluna í fóstur tók,
fyrst sem ungur snáði.

Hugsun sína henni fól,
heill með orðgnótt sanna,
vísnagerð því veitti skjól,
á vegferð kynslóðanna.

Áfram feðra arfinn bar,
allmörg kveðin ríma,
íslensk tunga átti þar,
útvörð sinn um tíma.

Öðlingslundin ein og stök,
ætíð sýnd var mönnum,
og gæddi lífsins glímutök,
gleðianda sönnum.

Buðu sálar bestu kjör,
er brautir geystust kunnar,
glettni, ákefð, gáski og fjör,
á grunni alvörunnar.

Minningin er mikils verð,
-metinn verka sinna,
hann sem nýtti sómans sverð,
sigur til að vinna.

Því má hefja þakkarsöng,
er þjóni virðing hæsta,
enda nærri aldarlöng,
ævileiðin glæsta.

                    Einar Kolb.

Hafið það eins gott og þið getið
~Anna~


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: www.zordis.com

Elskan mín, ég sendi þér mínar allra hlýjustu samúðarkveðjur ... megi guð fylla rúmið sem afi þinn Grímur skilur eftir sig á jörðinni.  Það veit sá sem allt veit að okkar tími er sem blik á jörðu en eilífð í huganum!

www.zordis.com, 12.4.2007 kl. 16:33

2 identicon

Fallegar vísur. Mínar bestu kveðjur til ykkar og allra þinna fyrir norðan líka.

Anna Málfríður

Anna Málfríður (IP-tala skráð) 14.4.2007 kl. 22:59

3 Smámynd: Kolla

Megi góðar minningar hlíja þér um hjartarætur það sem eftir er.

Knús 

Kolla, 19.4.2007 kl. 15:35

4 Smámynd: www.zordis.com

Gleðilegt sumar Ljúfan!  Blessuð sé falleg minning ........

www.zordis.com, 19.4.2007 kl. 20:53

5 Smámynd: Gerða Kristjáns

Ofsalega er þetta fallegt

Gerða Kristjáns, 21.4.2007 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband